Andleg næring á mjólkurfernum

02.08.2008

Mjólkurfernur hafa ekki aðeins að geyma líkamlega næringu, heldur einnig andlega. Sveinn Guðjónsson ræddi við þrjú ungskáld sem hlutu sérstaka viðurkenningu í ljóða- og örsagnasamkeppni Mjólkursamsölunnar, sem haldin var meðal grunnskólanema. MJÓLK er holl og hún er góð. Hún hressir andann, styrkir beinin og er nærandi. Um þetta eru flestir sammála. Mjólkurfernur hafa líka borið kjarnyrta íslensku á borð fyrir neytendur sína, því síðastliðin ár hefur Mjólkursamsalan birt texta á mjólkurumbúðum undir kjörorðinu Íslenska er okkar mál. Textarnir hafa verið af ýmsum toga; málfarsábendingar, bókmenntatextar, brot úr barnabókmenntum og ýmislegt skrýtið og skemmtilegt úr gömlum blöðum og bókum. Og nú hefur Mjólkursamsalan rutt braut fyrir ung skáld til að koma kveðskap sínum á framfæri.


Sjálfsagt hafa margir mjólkurneytendur tekið eftir því að textar eftir íslensk ungmenni hafa birst á mjólkurumbúðunum í stað eldri texta. Hér er um að ræða afrakstur Fernuflugs, ljóða- og örsagnasamkeppni Mjólkursamsölunnar, sem haldin var síðastliðinn vetur meðal grunnskólanema í 8., 9. og 10. bekk. Samkeppnin var haldin í samstarfi við Íslenska málstöð og Félag móðurmálskennara í tilefni af Evrópsku tungumálaári. Sextíu og fjórir textar voru valdir til birtingar úr tæplega 1200 innsendum textum sem bárust og verða þeir í umferð í um það bil tvö ár. Fyrstu textarnir birtust í lok október og smám saman verður bætt við nýjum textum. Er búist við að efnið verði alls prentað í um 40 milljónum eintaka af nýmjólkur- og léttmjólkurumbúðum og mun því hver texti, saga eða ljóð, birtast á um 600 þúsund fernum.

Verkefni í íslensku
Ef marka má undirtektir grunnskólanema og allan þann fjölda frambærilegra ljóða sem bárust, er ljóst að Íslendingar geta enn um hríð stært sig af óvenju frjórri skáldskapargáfu.

Sunna Örlygsdóttir, nemandi í Hagaskóla, fékk viðurkenningu fyrir besta heildarframlag til Fernuflugs, fimm texta sem birtust, en hún sendi fleiri mjög frambærilega texta svo að dómnefnd þurfti að beita ákvæði um takmörkun efnis frá einum höfundi.

„Íslenskukennarinn minn úr sjöunda bekk, Edda Pétursdóttir, lét mig vita af þessari keppni og hvatti mig til að taka þátt. Mér finnst mjög gaman að skrifa sögur og gerði dálítið af því þegar ég var yngri. Þá bað ég ömmu um að skrifa þetta bull upp eftir mig. Og ég lít frekar á þetta sem sögur en ljóð. Ég nota til dæmis aldrei rím í þessu sem ég er að skrifa enda er ég hrifnari af órímuðum ljóðum,“ sagði Sunna.

„Það birtist eitt ljóð eftir mig í skólablaðinu í fyrra, þegar ég var í áttunda bekk,“ sagði Sunna þegar hún var spurð hvort eitthvað hefði birst eftir hana á prenti áður en hún tók þátt í Fernuflugi. „Það er það eina sem hefur birst eftir mig á prenti þangað til núna, að þetta er farið að birtast á mjólkurfernunum.“

Sunna kvaðst ekki hafa lesið mikið af ljóðum sem krakki. „Ég var ekkert sérstaklega ljóðelsk. Las bara það sem sett var fyrir í skólanum. En af þeim ljóðskáldum sem ég hef lesið finnst mér Þórarinn Eldjárn bestur. Mér finnst ljóðin hans bara svo skemmtileg,“ sagði Sunna. Um framtíðaráform sín sagðist hún hafa áhuga á fatahönnun, en gæti jafnframt hugsað sér að vera rithöfundur í frístundum. „Þegar ég var í þriðja bekk var ég staðráðin í að verða rithöfundur þegar ég yrði stór. En ég held að ritstörf séu ótrygg atvinna og vissara að hafa eitthvert öruggara starf með,“ sagði Sunna.

Ólafur Andri Guðmundsson var nemandi í tíunda bekk Smáraskóla þegar samkeppnin fór fram, en hann er nú á fyrsta ári í Menntaskólanum í Kópavogi.

„Þetta verkefni var lagt fyrir okkur í íslensku og ég ákvað að senda inn ljóð sem ég kallaði Nafnlaust ljóð. Það kom mér á óvart að þetta ljóð hlaut sérstaka viðurkenningu, en ég lít nú samt ekki á mig sem neitt ljóðskáld þrátt fyrir það,“ sagði Ólafur. „Þegar ég var yngri fékkst ég aðeins við að búa til kvæði, bæði rímaðar ferskeytlur og svo eitthvað óhefðbundið líka. Ég gerði reyndar tilraun til að skrifa heila ljóðabók, en kláraði það verk aldrei.“

Ólafur kvaðst ekki hafa verið ljóðelskari sem barn en gerist og gengur með krakka. „Ég las ljóð í skólanum eins og aðrir, en ekkert meira en það. Ég lá aldrei yfir neinum ljóðabókum og átti mér ekki neina sérstaka uppáhaldshöfunda.“

Ólafur sagðist ekki hafa nein áform um það í framtíðinni að gerast skáld eða rithöfundur. „Ég er á náttúrufræðibraut í MK og get vel hugsað mér að fara síðan í lögfræði í háskólanum. En fyrst langar mig að fara í Hólaskóla í tvö ár og læra meira um hestamennsku. Hún er áhugamál mitt númer eitt og eins konar lífsstíll hjá mér. Ég gæti vel hugsað mér að starfa við það í framtíðinni að vera atvinnutamningamaður,“ sagði Ólafur Andri Guðmundsson.
 
Það fyrsta sem mér kom í hug
Jónína Guðrún Eysteinsdóttir var nemandi í tíunda bekk í Tjarnarskóla þegar hún vann til fyrstu verðlauna í Fernuflugi með ljóðinu Ævintýrið um Og.

„Það var eiginlega ekki ég sem sendi þetta kvæði í ljóðasamkeppnina, heldur skólastjórinn minn í Tjarnarskóla, María Sólveig Héðinsdóttir,“ sagði Jónína. „Það kom mér því mjög á óvart þegar hringt var og mér tilkynnt að ljóðið hefði hreppt fyrsta sætið. Ég var alveg búin að steingleyma því að ég tók þátt í samkeppninni.“

Jónína er nú á fyrsta ári í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, á fjölmiðlabraut, enda kvaðst hún hafa afskaplega mikinn áhuga á ritstörfum:

„Síðan ég lærði að skrifa hef ég verið að semja ljóð, sögur og leikrit, bara um það sem mér dettur í hug hverju sinni. Ég hef líka verið að bögglast með söngtexta frá því ég var krakki. En það var líklega bara heppni að ég orti þetta ljóð, Ævintýrið um Og, einmitt á þessum tíma. Við fengum þetta verkefni í íslenskutíma, að semja ljóð eða örsögu, sem við áttum að skila fyrir morgundaginn, og ég bara skrifaði það fyrsta sem mér kom í hug í flýtinum. Ég hafði það eitt að markmiði, eins og alltaf þegar ég skrifa ljóð, að hafa einhverja hugsun í því.“

Jónína kvaðst hafa prófað að yrkja rímuð ljóð, en vildi ekki gera upp á milli formgerða í kveðskap. Hún vildi heldur ekki gera upp á milli einstakra ljóðskálda eða rithöfunda, en kvaðst vera sammála Sunnu um að kvæði Þórarins Eldjárns væru skemmtileg. „Af gömlu skáldunum er ég hrifnust af Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi. En bókmenntasmekkurinn fer mikið eftir því í hvernig skapi ég er hverju sinni. Einn daginn finnst mér þetta gott og hinn daginn kannski eitthvað allt annað. Ég er núna að lesa Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness, og hann er auðvitað einn af okkar fremstu rithöfundum.“

Ef Jónína les ljóð eru þau oftast af vefsíðunni hugi.is, sem er eins konar áhugamálavefur sem býður upp á nánast allt milli himins og jarðar. „Á þessum vef birtist mikið af ljóðum eftir áhugaskáld og oft er það mjög gott efni sem þarna birtist.“

Um framtíðaráform sín sagði Jónína að hún stefndi að því að starfa við ritstörf. „Mig langar til að fara í hagnýta fjölmiðlun í Háskólanum og vinna kannski við blaðamennsku í framtíðinni. Einnig hef ég áhuga á heimspeki og stjórnmálafræði. Svo er ég alveg harðákveðin í að verða rithöfundur,“ sagði Jónína Guðrún Eysteinsdóttir.

Fleiri viðurkenningar og greinar