Mjólkursamsalan hlýtur Laxnessfjöðrina fyrir öflugt og áhrifaríkt starf í þágu íslenskrar tungu

02.08.2008

Á alþjóðlegum móðurmálsdegi 21. febrúar var í fyrsta sinn veitt viðurkenning sem nefnist Laxnessfjöðrin og er einkum ætlað að örva æskufólk til að leggja rækt við íslenska tungu. Fjöðrin féll  í skaut Mjólkursamsölunni fyrir öflugt og áhrifaríkt starf að þessu markmiði og var hún afhent á Gljúfrasteini.

Guðlaugur Björgvinsson forstjóri MS veitti fjöðrinni viðtöku, og
viðstödd voru börn og unglingar sem Mjólkursamsalan hefur verðlaunað. Í framtíðinni er ætlunin m.a. að leita samvinnu við einstaka grunnskóla sem beðnir verða að benda á nemendur sem sem munu fá fjöðrina sem uppörvun og viðurkenningu fyrir leikni í meðferð móðurmálsins.

Í Keflavík stendur listaverkið Laxnessfjöðrin eftir Erling Jónsson myndhöggvara, mótað í líkingu arnarfjaðrar. Erlingur Jónsson, sem áður var kennari í Keflavík en hefur um margra ára skeið verið búsettur í Noregi, hefur margoft sótt innblástur í verk Halldórs Laxness. Hann hefur nú gefið fjölda af smáum afsteypum af Laxness-fjöðrinni sem hann ætlar ungu fólki sem hefur sýnt góð tök á móðurmálinu, þeim sem örva æskuna og eru henni fyrirmyndir. Að frumkvæði hans hefur orðið til hópur fólks sem hefur tekið að sér að úthluta fjöðrinni, en í þessum hópi eru: Andri Snær Magnason, Birgir Guðnason, Matthías Johannessen, Pétur Gunnarsson, Sigríður Halldórsdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir, Vésteinn Ólason, Vigdís Finnbogadóttir og Þorgrímur Þráinsson.

Fleiri viðurkenningar og greinar