Beint í efni
En

MS styrkir heimsókn grænlenskra skólabarna til Íslands

Frá árinu 2005 hefur Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, boðið börnum frá smáþorpum á austurströnd Grænlands í tveggja vikna heimsókn til Íslands. Megin markmið ferðarinnar er að kenna börnunum sund og kynna þau fyrir jafnöldrum sínum og íslensku samfélagi en með í för eru nokkrir kennarar barnanna. Ný ævintýri bíða á hverjum degi í þær tvær vikur sem þau dvelja á Íslandi og meðal þess sem krakkarnir fá að gera og upplifa er að fara í sund tvisvar á dag, sitja kennslustundir í grunnskólum í Kópavogi, heimsækja Húsdýragarðinn og fara í bíó og leikhús í fyrsta sinn á ævinni. Meira að segja rúllustiganum í Kringlunni er ofboðslega spennandi og strætóferð glæný upplifun.

Mjólkursamsalan hefur frá upphafi verið stoltur styrktaraðili þessa verkefnis, en forsprakkar þess voru Stefán Herbertsson, vélstjóri og stjórnarmaður Kalak og Hrafn Jökulsson heitinn, sem var forseti skákfélagsins Hróksins. Verkefnið hefur mikið forvarnargildi fyrir grænlenskt samfélag þar sem engar sundlaugar eru á Austur-Grænlandi og opna ferðirnar oft augu krakkanna fyrir umheiminum og þeim möguleika að hægt sé að sækja sér framhaldsmenntun og eiga sér framtíð utan lita bæjarins.

Hr. Guðni Th. Jóhannesson tók á móti börnunum og kennurum þeirra á Bessastöðum í vikunni og er óhætt að segja að heimsóknin hafi vakið mikla gleði hjá öllum viðstöddum enda bauð forsetinn upp á skemmtilegt söngatriði með hópnum, einn nemendanna spilaði á píanó og loks gæddu gestir sér á íslenskum pönnukökum og súkkulaðiköku.

Myndir:

Guðni Th. Jóhannesson og grænlensku börnin.
Skúli Pálsson og Stefán Herbertsson, stjórnarmenn í Kalak, Gréta Björg Jakobsdóttir, fulltrúi Mjólkursamsölunnar og forseti Íslands.