Beint í efni
En

Á íslensku má alltaf finna svar

Frá árinu 1994 hefur Mjólkursamsalan beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins með fjölbreyttum leiðum og hefur fyrirtækið í öllu starfi sínu verið meðvitað um íslenskt mál og mikilvægi þess í íslensku samfélagi. Stærsta og sýnilegasta verkefni fyrirtækisins eru sérstök íslenskuátök sem birst hafa landsmönnum á mjólkurfernum MS en frá upphafi hefur markmið þess verið að hvetja til umræðu um íslenskt mál. Með þessu er MS ekki að kenna tungumálið heldur er ætlunin að vekja sem flesta til umhugsunar um verðmæti þess að viðhalda móðurmálinu okkar.

MS beinir sjónum að því að styrkja íslenska tungu og skapa umræðu um hana með áhugaverðum málfarsábendingum á mjólkurfernum. Ábendingarnar hafa komið úr ýmsum áttum með það að leiðarljósi að rækta móðurmálið og draga fram fjölbreytileika íslenskrar tungu.

Mjólkurfernurnar koma við sögu á borðum flestra landsmanna á degi hverjum og eru þær því sterkur og skemmtilegur miðill til að koma jákvæðum skilaboðum á framfæri. Efnið sem komið hefur fyrir sjónir almennings er afar fjölbreytt og margir komið að því verki. Nú síðast voru textar um örnefni Íslands á mjólkurfernunum og þannig voru tengd saman landafræði, íslenskt mál og orðsifjar. Áður hafa prýtt fernurnar bókmenntatextar, barnabókmenntir, gátur og orðatiltæki svo eitthvað sé nefnt. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að textarnir og myndskreytingarnar höfði til fólks á öllum aldri og efnið sé aðgengilegt börnum frá 10 ára aldri.

Í nóvember 2018 leit dagsins ljós afrakstur samstarfs afmælisnefndar fullveldis Íslands og Mjólkursamsölunnar þegar sérstakar fullveldisfernur komu í verslanir í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands. Fernurnar prýddu sex mismunandi textar og myndskreytingar um markverða atburði sem áttu sér stað á árinu 1918 og má þar nefna Kötlugos og frostaveturinn mikla.

Mjólkursamsalan hefur allt frá árinu 1994 beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins og var hugmynd afmælisnefndar um samstarf því vel tekið. Mjólkurfernur koma við sögu á borðum flestra landsmanna á degi hverjum og eru þær því sterkur og skemmtilegur miðill til að koma jákvæðum skilaboðum og fróðleik á framfæri. Samstarf afmælisnefndar við Mjólkursamsöluna var liður í stærra verkefni sem afmælisnefnd var falið samkvæmt þingsályktun og miðaði að því að vekja áhuga ungs fólks á fullveldisárinu og þeim merka áfanga sem náðist með sambandslögunum árið 1918. Samstarf afmælisnefndar og MS var liður í að færa fræðslu um fullveldisárið inn á sem flest heimili í landinu.

MS leggur sitt af mörkum með þátttöku og kynningu á málræktarþingi íslenskrar málnefndar og með auglýsingum til hvatningar um árvekni og samstöðu allra landsmanna um að standa vörð um móðurmálið. Þannig vekjum við á hverju ári athygli á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember með auglýsingum í dagblöðum, vefmiðlum og sjónvarpi. Auglýsingarnar eru unnar í samráði við íslenska málnefnd og taka mið af þema ráðstefnanna hverju sinni.

Árið 1994 var framleidd sérstök sjónvarpsauglýsing sem ætlað var að vekja almenning til umhugsunar um mikilvægi þess að varðveita tunguna. Alexandra Gunnlaugsdóttir flutti í auglýsingunni ljóð sem Þórarinn Eldjárn samdi sérstaklega fyrir MS í tilefni af samstarfi fyrirtækisins og íslenskrar málnefndar. Ljóðið er ort við þekkt lag eftir Atla Heimi Sveinsson og er Íslenskuljóðið nú sungið í tilefni dags íslenskrar tungu í fjölmörgum skólum land allt.

Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði´ og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.

Á vörum okkar verður tungan þjál,
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú,
það gerir enginn - nema ég og þú.

Mjólkursamsalan var einn af aðalstyrktaraðilum Allir lesa, landsátaks í lestri sem stóð yfir árin 2014-2015. Til að vekja athygli á átakinu og hvetja landsmenn til að lesa var ákveðið að setja mjólkurfernur tímabundið í skemmtilegan búning. Ein hlið fernanna var í formi þekktrar bókarkápu og var þar jafnframt hvatning til landsmanna að lesa.

Á árunum 1996-2007 gaf Mjólkursamsalan út þrjú veggspjöld sem drógu fram hina sönnu þrenningu íslenskrar menningar: Land, þjóð og tungu. Hið fyrsta kom út árið 1996, þar sem andlit Jóns Sigurðssonar var sett saman úr ljósmyndum af Íslendingum. Árið 2002, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Halldórs Laxness, kom annað veggspjaldið út þar sem andlit Halldórs birtist gegnum tilvitnanir í íslensk bókmenntaverk. Þriðja veggspjaldið var síðan gefið út árið 2007 undir merkjum átaksins Íslenska er okkar mál og var það í tilefni 200 ára afmæli skáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Veggspjöldum var dreift í gegnum Námsgagnastofnun til grunnskóla og einnig í allar opinberar stofnanir og mörg fyrirtæki. Enn þann dag í dag berast fyrirspurnir frá landsmönnum um veggspjöldin sem við sendum þeim er þess óska.

Íslenskuátakið hefur haft áhrif á allt markaðsstarf fyrirtækisins í gegnum árin og hefur þessi áhersla einnig hjálpað til í markaðsstarfi erlendis og má þar helst nefna íslenska vörumerkið Ísey skyr sem ber séríslenska stafi og vísar í langa og sterka sögu skyrsins í gegnum aldirnar. Þá bera öll vörumerki MS séríslensk nöfn og hefur rík áhersla verið lögð á að nota íslenska tónlist í auglýsingum sem frekast er unnt.