Þitt er valið
Öll viljum við borða hollan og góðan mat. MS býður upp á breitt úrval af næringarríkum mjólkurvörum, allt frá smjöri og ostum yfir í skyrdrykki og jógúrt. Í dag er svo komið að neytendur hafa fjölbreytt val í öllum helstu vöruflokkum MS. MS hefur unnið markvisst að því síðustu ár að minnka hlutfall viðbætts sykurs í afurðum sínum. Rúmlega 92% af allri mjólk sem kemur til MS fer í hreinar afurðir eða vörur án viðbætts sykurs.
Þú hefur val um hreinar, bragðbættar eða kolvetnaskertar sýrðar mjólkurafurðir. Allar eru þær ríkar af próteini, kalki, vítamínum og steinefnum. Þitt er valið.
- Bragðbættar - vörur sem eru bragðbættar með ávöxtum og sykri eða öðrum sætugjöfum.
- Hreinar - sýrðar vörur með mjólkursýrugerlum, án ávaxta og allra sætugjafa.
- Kolvetnaskertar - vörur bragðbættar með ávöxtum og sætuefnum, án viðbætts sykurs. Orku- og kolvetnaskert nokkurn veginn til jafns við hreina vöru.
HVAÐ ER Í MJÓLKURVÖRUM?
Mjólkurvörur eru ríkar af próteini, kalki, vítamínum og steinefnum. Þrátt fyrir að sumar sýrðar mjólkurvörur innihaldi viðbættan sykur eru þær samt sem áður ríkar af þessum hollustuefnum.
- Prótein - Mjólk er góður próteingjafi og inniheldur prótein af góðum gæðum. Það þýðir að úr próteinum mjólkur fást auðveldlega allar lífsnauðsynlegar amínósýrur (sem eru grunneiningar próteina).
Prótein eru mikilvæg til uppbyggingar vöðva og endurnýjunar á öðrum vefjum líkamans. - Kalk - Sérstaða mjólkurmatar felst meðal annars í því að vera ein besta uppspretta kalks sem völ er á. Í landskönnun á mataræði Íslendinga frá árinu 2010-2011 sést að tæp 70% af kalkneyslunni kemur frá mjólkurvörum (ostar meðtaldir). Mjólkursykur (laktósi) eykur einnig nýtingu á kalki og má því með sanni segja mjólkurvörur besta kalkgjafa sem völ er á. Kalk er mikilvægt byggingarefni beina og tanna.
- Vítamín og steinefni - Mjólkurvörur innihalda í ríkum mæli 13 af 18 mikilvægustu vítamínum og steinefnum sem líkaminn þarf á að halda. Meðal annars góð uppspretta kalks, fosfórs, B2 og B12 vítamína, sinks, joðs og áfram mætti telja. Þessi efni gegna margs konar hlutverkum í líkamanum, meðal annars í orkuefnaskiptunum.
- Fita - Hefðbundin blá mjólk inniheldur um 4% fitu. Um 60% af mjólkurfitunni er mettuð, tæplega 30% einómettuð og um 3% fjölómettuð. Í fjölbreyttu vöruvali hjá MS má finna allt frá mjög feitum vörum á borð við smjör og rjóma yfir í fitulausar vörur á borð við undanrennu og skyr. Fita er mikilvægur orkugjafi og er nauðsynleg meðal annars til að flytja fituleysin vítamín.
- Kolvetni - Í mjólkurvörum eru kolvetni náttúrulega til staðar á formi mjólkursykurs eða laktósa. Í hreinu skyri eru t.d. 4 g af mjólkursykri í 100 g. Kolvetni eru mikilvægasti orkugjafi líkamans og til marks um það nýtir heilinn aðeins kolvetni sem orkugjafa, en ekki prótein eða fitu.
- Viðbættur sykur / sætuefni - Vörur sem eru bragðbættar með ávöxtum þurfa aukasætu til að breiða yfir súrbragðið sem er af hreinu vörunni og ýta undir ávaxtabragðið. Það er gert með því að nota viðbættan sykur eða sætuefni. Markmið MS er að nota eins lítinn sykur og hægt er í þessum tilgangi og miðar vöruþróun fyrirtækisins að því að leita allra leiða til að draga sem mest úr notkun sykurs og sætuefna í vörum fyrirtækisins.
Í HVAÐ FER MJÓLKIN?
Mjólkursamsalan sækir mjólk frá eigendum sínum, íslenskum mjólkurbændum, um allt land. 92% af allri mjólk sem kemur til MS fer í afurðir án viðbætts sykurs.
- 60% af mjólkinni fer í ost og smjör.
- 32% af mjólkinni fer í aðrar hreinar mjólkurafurðir.
- 8% af heildarmagninu fer í bragðbættar afurðir á borð við bragðbætt skyr og jógúrt.
HVAÐAN FÁ ÍSLENDINGAR VIÐBÆTTAN SYKUR ÚR FÆÐUNNI?
Embætti landlæknis í samstarfi við Matvælastofnun framkvæmir ítarlegar rannsóknir á mataræði Íslendinga á um tíu ára fresti. Í síðustu landskönnun á mataræði Íslendinga tóku 1312 manns á aldrinum 18-80 ára þátt. Þegar skoðað er hvaðan Íslendingar fá viðbættan sykur í fæðunni kemur í ljós að lítinn hluti af viðbættum sykri kemur úr bragðbættum mjólkurvörum eða um 6% Um 80% af viðbættum sykri í fæði fullorðinna koma úr gos- og svaladrykkjum, sælgæti, kökum, kexi og ís, þar af tæpur helmingur úr gos- og svaladrykkjum.
AÐ LESA INNIHALDSLÝSINGU
Innihaldslýsingar geta virst flóknar og jafnvel yfirþyrmandi en með því að setja sig aðeins inn í málið verður leikur einn að lesa allar innihaldslýsingar.
- Efnin eru talin upp í magnröð þ.e. það efni sem mest er af er fyrst og svo kolli af kolli.
- Ofnæmis- og óþolsvaldar eru feitletraðir.
- Kolvetni eru sýnd sem heildartala og svo „þar af sykurtegundir“. Sykurtegundir eru allar þær tegundir af einföldum sykrum sem eru í mjólkurvörunni t.d. mjólkursykur, ávaxtasykur eða hvítur sykur (súkrósi). Sé mismunur á milli þessara tala þá er þar um að ræða sk. flókin kolvetni (fjölsykrur), þ.e. sterkju eða trefjar.
- Fita er öll sú fita sem er í mjólkurvörunni. Mettuð fita hefur engin tvítengi og er yfirleitt hörð við stofuhita.
- Tölurnar eru miðaðar við næringargildi í 100 g. Hafa verður í huga að dæmigerð skammtastærð getur verið frábrugðin því magni, t.d. inniheldur lítil Skyr.is dós 170 g og mjólkurglas er oft um 200 g. Ostsneiðar á brauðsneið vega um 20 g.
- Næringarviðmiðunargildi (NV) eru byggð á ráðlögðum dagskömmtum fyrir vítamín og steinefni og prósentutölurnar endurspegla hversu hátt hlutfall viðkomandi efnis af næringarviðmiðunargildum fæst í hverjum 100 g af vörunni.