Fernuflug
Mjólkursamsalan hefur frá árinu 1994 beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins með fjölbreyttum leiðum og hafa stærstu og sýnilegustu verkefni okkar verið íslenskuátökin á mjólkurfernum MS. Mjólkurfernurnar hafa þannig verið nýttar sem vettvangur málræktar, tjáningar og sköpunar og því var ákveðið að endurvekja textasamkeppni grunnskólanema, Fernuflug, á haustmánuðum 2023.
Gerum orðin fleyg
Það er óhætt að segja að Fernuflugið hafi ýtt undir sköpunargleði grunnskólanema og skapað lifandi umræðu um tungumálið sem er okkur öllum svo kært því yfir 1.200 textar bárust í keppnina frá nemendum í 8.-10. bekk um land allt og af þeim voru 48 textar valdir til birtingar á mjólkurfernum okkar. Eftir mikla vinnu dómnefndar voru að lokum þrír textar verðlaunaðir sérstaklega með veglegri peningagjöf frá Mjólkursamsölunni þar sem 1. sæti hlaut 300.000 kr., 2. sæti 200.000 kr. og 3. sæti 100.000 kr.
1. sæti
1. verðlaun í Fernufluginu 2023 hlýtur Hekla Dís O'Shea, nemandi í 10. bekk í Árbæjarskóla Reykjavík.
Hvað er að vera ég?
Spegla mig í morgunverðarskálinni, áður en ég týnist í
umferðarfrumskógi.
Lofa skammdeginu að standa mig vel í dag,
uns birtir á ný.
Fjallgarðarnir fylgjast með mér í amstri hversdagsleikans.
Titra stundum og skjálfa af eftirvæntingu og gleði.
Loksins kemst ég heim. Það er kveikt á norðurljósunum og tunglið glottir.
Veðurfréttir, ilmur af kvöldmat, úlfatími.
Það er yndislegt að vera ég.
2. sæti
2. verðlaun í Fernufluginu hlýtur Torfhildur Elva Friðbjargar Tryggvadóttir, nemandi í 8. bekk í Glerárskóla Akureyri.
Hvað er að vera ég?
Ég ligg á eldhúsgólfinu,
það er gólfhiti og ég finn ylinn streyma upp bakið á mér.
Reiðin sem býr innan í mér bráðnar og lekur frá líkamanum.
Vonbrigðin leysast upp og verða að gufu.
Hatursköggullinn í maganum á mér hverfur.
Ég horfi á innanverð augnlokin á mér.
Kærleikurinn byrjar að flæða upp æðarnar og upp í hjarta.
Ég finn hvernig ég endurnýjast.
Ég verð heil aftur.
Tilbúin í nýjan dag með nýjum tækifærum.
3. sæti
3. verðlaun í Fernufluginu hlýtur Rafn Ibsen Ríkharðsson, nemandi í 8. bekk í Heiðarskóla Reykjanesbæ.
Hvað er að vera ég?
Að ég vera er að vera þversögn,
Eins og stífluð frárennslislögn.
Smá spræna og beljandi stórfljót,
Stærðarinnar fjallgarður og lítið grjót.
Flókinn, fróður og tregur,
rökfastur og óútskýranlegur.
Eldsnöggur, fávís og einfaldur,
vísindalega sannaður galdur.
Í senn yfirvegaður og óður,
óskrifað blað og reynslusjóður.
Lygilega erfiður og laufléttur,
umkomulaus og vel í sveit settur.
Hreinskilinn í máli myrkur,
sjálfhverfur og meðvirkur.
Uggur og ótti, von og trú,
– stundum ég og stundum þú.
Íslenska er okkar mál
...og af því tilefni prýða nú framúrskarandi textar eftir 48 grunnskólanema mjólkurfernur okkar sem má lesa hér fyrir neðan. Fernuflug er hvatning til þess að gefa orðunum byr undir báða vængi og saman gerum við orðin fleyg.
Hvað er að vera ég?
Maður þarf að passa sig að passa sig ekki of mikið. Lífið er stutt. Í tölvuleikjum fær maður mörg líf. Í lífinu fær maður mörg tækifæri. Ég vil nýta þau. Ég vil elta drauma mína. Því hvað eru draumar annað en æfing fyrir veruleikann?
Hvað er að vera ég?
Hver ræður lífi okkar?
Einhver ósýnileg vera eða er líf okkar afleiðing af þeim ákvörðunum sem við tökum í gegnum lífið?
Við stöndum næstum alltaf frammi fyrir vali.
Hvert val hefur áhrif á framtíð okkar.
Örlög eru líka mjög mikilvægur þáttur í að byggja upp líf okkar.
Ef val er múrsteinn í byggingu húss, þá eru örlög grunnur hússins sem kallast „líf“.
Þess vegna, þegar ég er spurður hver ég er, er ég tilbúinn að svara.
Ég er afleiðing af vali mínu og gjörðum.
Hvað er að vera ég?
Lífið er svolítið eins og stundaglas,
það er lengi að líða en þegar tíminn er kominn
þá á maður svo alltof mikið eftir.
Sumir vilja að stundaglasið renni aldrei út og vilja njóta hverrar einustu stundar,
en aðrir bíða eftir hverju einasta korni að falla.
En hver veit nema að þegar tíminn er búinn þá snýst það aftur við og byrjar upp á nýtt.
Hvað er að vera ég?
Ég geng eftir ganginum langa,
þar myndir á veggjunum hanga.
Ég skoða þær vil
og fljótlega skil
að myndirnar söguna fanga.
Á fyrstu mynd sé ég lítið barn sem sefur
kúrir þar og bangsann sinn hefur.
höfuðið í hálsakoti grefur.
Á næstu mynd er stelpa líklega fimm
sem rólar hátt með miklum hlátrasköllum.
Hún rólar hátt eins og sé uppá fjöllum,
og myndin verður allt í einu hálf dimm.
Svo er mynd af stelpu
svona tíu ára.
Hún heldur á litlu barni
sem hjalar þar í fangi.
Fjórða mynd er síðan spegill.
Þar stari ég á móti mér.
Ofan á speglinum er titill;
Horfðu inn í sál hjá þér.
Allar myndirnar voru af mér,
mismunandi útgáfur sem sáust hér.
Og rétt eins og bragarháttur þessa ljóðs
hef ég breyst, og það vonandi til góðs.
Hvað er að vera ég?
Ég? Að vera ég er að geta vaknað og dregið inn fyrsta andardrátt dagsins, opnað augun og upplifað nýjan dag. Að vera ég er upplifun sem bara ég þekki, að vera ég er eitthvað sem fólk fær að sjá en ekki finna, að vera ég er skrítið, líkt og að vera í herbergi sem tilheyrir mér, fullt af öllum mínum minningum vitandi að allir aðrir eru í sínu eigin herbergi sem tilheyrir þeim.
Hvað er að vera ég?
Unglingsárin mín.
Tilfinningaóreiða
í fjórða veldi.
Unglingsárin mín.
Sviti, tár, ástarsorg og
unglingabólur.
Unglingsárin mín.
Þrúgandi vöntun á ást.
Einmanaleiki.
Unglingsárin mín.
Ég er allt, ég er ekkert.
Hver er ég núna?
Unglingsárin mín.
Hormónataugahrúga.
Vandræðalegur.
Unglingsárin mín.
Sú eina sem ég þrái.
Hvenær finn ég þig?
Hvað er að vera ég?
Íslenski veturinn finnst mér æði
þá eru jólin og nýár bæði
hundar eru mín uppáhalds dýr
og líka hestar, kindur og kýr.
Asía finnst mér áhugaverð
öll þeirra menning og matargerð
Kórea, Japan, Thailand og Kína
með K-pop, pöndur og listina sína.
Hvað er að vera ég?
Að vera ég er frekar gaman.
Að spila fótbolta og hlaupa saman.
Mikið fjör og mikið líf.
Hafa gaman um alla tíð.
Að vera ég er frekar gaman.
En mikið stress er fyrir framan.
Erfitt lífið stundum er.
En lífið allt fyrir framan ber.
Að vera ég er frekar gaman.
Blanda þessu öllu saman.
Sama hvað sumir segja.
Megi þeir bara þegja.
Að vera ég er frekar gaman.
Tala mikið og hlæja saman.
Margir vinir fylgja mér.
En helst vil ég vera með þér.
Hvað er að vera ég?
Líkt og Sylvia Plath, er ég í stöðugri angist við þá staðreynd að ég mun aldrei geta lifað öll þau líf sem ég þrái að lifa. Ég mun aldrei geta verið bæði ríka, einhleypa, rauðvíns slúður frænkan og kærleiksríka, jólakökubakandi fótboltamamman. Ég mun aldrei geta gert allt það sem mig langar að gera og það er svo mikil synd.
Hvað er að vera ég?
Ég er ekki eins og ég var við fæðingu. Það er ekkert víst í lífinu.
Samfélagið hefur mótað mig eins og rúnaðan stein á sjávarbotni.
Foreldrar mínir, eldgosið sem ég myndaðist í,
leikskólakennarinn, vindurinn sem feykti mér í ána
og vinir mínir, áin sem bar mig niður að sjó.
Að læra að lesa, fyrsta aldan í fjörunni
og tískan, neðansjávarstraumarnir sem hafa áhrif á okkur öll.
Hvað er að vera ég?
Í augnaráði spegilsins sé ég andlit þitt,
ágætis eintak, fínasti gaur.
Með drauma sem svífa um loftið.
Í sögunni verða þeir að veruleika.
Hlátur þinn, eins og róandi straumur,
rennur í gegnum lífið líkt og skínandi sól.
Í gegnum prófanir, sigra, heldurðu ótrauður áfram.
Seigur fjandi, hörkutól.
Þú hugleiðir heiminn.
Leitar að fróðleik og visku.
Tónlistarunnandi með meiru.
Já, klárlega meistaraverk.
Þú ert merkileg mannvera.
Og munt alltaf vera það.
Í stóra veggteppi alheimsins
ertu bara einn stakur þráður.
Þrátt fyrir að vera einstakur og frjáls.
Hvað er að vera ég?
Ég er vænlegur píanóleikari.
Tenging mín við píanóið skilgreinir hluta af því sem ég er.
Þetta hljóðfæri er ekki bara nótur, heldur gátt inn í tilfinningar mínar og sköpun.
Tónlistin er mál mitt,
píanóið er rödd mín.
Ég nota það til að tengjast þeim sem deila sömu tilfinningum, sem orð fá ekki lýst.
Hver hljóðtaktur er hluti af mér, hvert lag er stöðugt ferðalag.
Spila klukkutíma eftir klukkutíma
og kynnist sjálfum mér upp á nýtt.
Hvað er að vera ég?
Ég er þrautseigur einstaklingur
sem gefst ekki upp á því sem hann vill.
Brosið er mitt besta vopn
í baráttunni sem lífið hefur í för með sér.
Eitt af því sem skilgreinir mig
er ástríða mín fyrir þekkingu,
því þekking er kraftur.
Hljóðlátt eðli mitt, ástríða fyrir menntun,
umhyggja fyrir fjölskyldu og vinum,
Vilji til að ganga út á ystu nöfn.
Þetta er allt kjarninn minn.
Ég er stolt af manneskjunni sem ég er í dag
og spennt fyrir manneskjunni sem ég verð í framtíðinni.
Hvað er að vera ég?
Þegar ég lít í spegil sé ég strák
hann er hávaxinn, grannur og ljóshærður.
hann er fljótur að hlaupa, hann elskar að grínast,
stundum fer hann of langt,
en hann er samt góður og blíður strákur.
Stundum er hann hávær og stundum lágvær.
Stundum verður hann soldið æstur
og stundum rólegur.
En samt er hann góður og blíður strákur
með stórt hjarta
þótt hann sýni það ekki alltaf.
Hvað er að vera ég?
Ég er unglingur í þessum skrítna heimi,
ég veit stundum ekki hvar ég er í þessum rafgeymi.
Ég horfi yfir bekkjarfélagana og dreymi,
ef við værum öll eitt símalaust teymi.
Hvernig væri þá allt?
Við myndum ræða málin, loftslagsbreytingar, er lífið svo einfalt?
Eða segja brandara um eitthvað snjallt,
ekki misskilja mig, við tölum um flest allt.
En ég veit, ef við myndum leggja símana frá okkur í smá stund,
sæjum við að við erum ekki bara ein tegund
eins og símarnir heldur miklu, miklu meira en þúsund
hugar sem geta snúið öllu við á örstund.
Hvað er að vera ég?
Spegla mig í morgunverðarskálinni, áður en ég týnist í
umferðarfrumskógi.
Lofa skammdeginu að standa mig vel í dag,
uns birtir á ný.
Fjallgarðarnir fylgjast með mér í amstri hversdagsleikans.
Titra stundum og skjálfa af eftirvæntingu og gleði.
Loksins kemst ég heim. Það er kveikt á norðurljósunum og tunglið glottir.
Veðurfréttir, ilmur af kvöldmat, úlfatími.
Það er yndislegt að vera ég.
Hvað er að vera ég?
Hver er ég?
Ég veit ekki.
Fólk spyr „hver ertu?“
Ég segi ekkert.
Hver er ég?
Ég veit.
Fólk spyr „hver ertu?“
Ég hugsi.
Hver er ég?
Ég er eðalborinn vandræðagemlingur.
Fólk spyr „hver ertu?“
Ég brosi.
Hvað er að vera ég?
Þegar fólk spyr hvað mig langar að vera í framtíðinni segi ég næstum alltaf eitthvað annað en ég sagði við síðustu manneskju. Því það fer eftir skapi mínu hver ég vill verða. Því ef ég er í klóku skapi langar mig að verða læknir. Ef ég er í skemmtilegu skapi langar mig að vera bakari og vera umkringt gómsætum kökum og sætindum. Og ef ég er í sjálfsöruggu skapi langar mig að verða fyrirsæta. En hvað myndi ég verða í framtíðinni ef allar þessar tilfinningar vinna
Hvað er að vera ég?
Klukkan er níu, það er laugardagsmorgunn, barnaefnið er í gangi og lífið er gott, ég er ennþá bara fjögurra ára. Ég er að borða morgunkornið mitt meðan ég reyni að lesa á mjólkurfernurnar. „Ég get ekki beðið eftir að verða fjórtán ára og vera farin að lesa.“ Nú er ég fjórtán ára, klukkan er tólf á laugardagsmorgni, ég fæ mér morgunmat á meðan ég er í símanum að skoða myndir af yngri mér. „Vá, hvað ég myndi gera allt til að verða fjögurra ára aftur.“
Hvað er að vera ég?
Tvíburi er orðið sem gerir mig að mér
ég mun útskýra það frekar hér.
Systir mín er ég og ég er hún
þótt augun hennar séu blá og mín grænbrún.
Hárið mitt er krullað og hennar slétt
en við höfum verið saman síðan mamma var ólétt.
Þegar systir mín grætur þá græt ég með
þegar hún hlær hlæ ég, það hefur nýskeð.
Sömu vinkonur sama heimili
við erum eins og sami aðili.
Sömu herbergi, sömu foreldrar
að vera með henni líf mitt auðveldar.
Útgáfurnar af mér eru margar
en þær byrja allaf á systur minni og hún lífi mínu bjargar.
Hvað er að vera ég?
Þegar ég var lítið var ég glatt.
ég var hresst,
ég var spennt,
ég var ekki hrætt um hvað öðrum fannst.
Ég var ég.
Núna.
Núna er ég þreytt.
Núna er ég hrætt um hvað öðrum finnst.,
hvað aðrir eru að hugsa.
En til hvers?
Enginn er að hugsa um mig,
núna eru allir uppteknir af því að vera sjálfir hræddir um hvað öðrum finnst.
Svo til hvers?
Til hvers að vera hrætt?
Valkvíði á ströndinni
Ég sit í sandinum, hugsandi.
Ég finn fyrir vindinum leika sér í hári mínu.
Ég er ein, alein á ströndinni.
Sjórinn og fuglarnir syngja í kór.
Ég dreg upp handklæði úr tösku minni.
Ég er ekki viss hvort ég vilji fara út í sjóinn eða ekki.
Hvernig veit ég hvað ég vil, hugsa ég með mér.
Finn ég fyrir tilfinningu.
Eða er þetta ágiskun.
Mun ég kannski aldrei vita hvað ég vil.
Ein ákvörðun getur gjörbreytt framtíð minni.
Gæti valkvíði verið erfiðleikar sem margir ganga í gegnum vegna of mikilla möguleika.
Ég sting handklæðinu ofan í tösku og hleyp heim.
Hvað er að vera ég?
Að vera ég er einstakt, trú og vonum. Það er summan af óteljandi augnablikum, stórum og smáum, sem skilgreina tilveru mína. Snýst um að umfaðma einstaklingseinkenni mín, skilja galla mína og þykja vænt um styrkleika mína. Það þýðir að labba um flókið völundarhús lífsins, taka ákvarðanir sem móta leið mína. Þetta snýst um að mynda tengsl við aðra, deila hlátri og tárum og læra af hvor öðrum. Að vera ég er ferðalag sjálfsuppgötvunar, vaxtar og sjálfssamþykkis. Þetta snýst um að finna tilgang og lífsfyllingu í miðjum margbreytileikanum. Draumum og manneskjunni sem ég þrái að verða.
Hver er ég?
Þegar ég tjái tilfinningar mínar
nota ég tjákn í stað orða
🤐😊☹️😉😮😘
😃😖😀😊😍
☹️🤐😮😉😀😶
Unglingar í dag nota tjákn.
Ég skil tjákn betur en orð.
Alla daga út og inn.
Hvað er að vera ég?
Í augnaráði spegilsins velti ég djúpt fyrir mér,
leyndarmálin sem ég geymi, lífin sem þau gætu eyðilagt.
Ég er örin sem merkja húð mína, vitnisburður um styrk,
áminning um að ég hef staðið af mér storma.
Ég er merki um ástina sem ég hef gefið og ástina sem ég á enn eftir að finna.
Ég er stöðugt í vinnslu, í sífelldri þróun, frjáls.
Spegilmynd alheimsins og alls þess sem hann gæti verið.
Einstakt og ófullkomið meistaraverk.
Hvað er að vera ég?
Lítil forvitin blá augu opnast,
tilbúin til þess að rannsaka heiminn í kringum sig.
Ekkert orð, en svo setning.
Ekki eitt skref, en svo hlaupandi.
Í dag tek ég mikilvægar ákvarðanir, eins gott að ég velji rétt.
En það er ekkert rétt eða rangt.
Lífið er rétt að byrja og ég ætla að njóta hér og nú.
Það besta er eftir og litlu bláu augun ætla að fylgjast vel með.
Hvað er að vera ég?
Hver er ég, hvar er ég og hvað vil ég verða eru spurningar sem flestir unglingar hafa spurt sig. Í raun og veru er ekkert svar til við þessum spurningum. Það er sem þú þarft að gera er að prófa nýja hluti, finna fleiri áhugamál, skoða umhverfi þitt, slökkva á tækjunum og slaka á. Þegar við erum stanslaust að bera okkur saman við aðra og alltaf að horfa á líf annarra á samfélagsmiðlum gleymum við að við erum ekki öll eins og hver einasta manneskja í heiminum er einstök á sinn hátt.
Hvað er að vera ég?
Hver er ég, er spurning svo djúp og víð,
ég leita eftir svari harmþrungin á meðan ég bíð.
Þú lýsir mér eins og bók sem þú hefur aldrei lesið,
eins og tónlist sem þú hlustar aldrei á.
En þú veist ekki að ég er meira en augun þín vilja sjá.
Ég er saga og minningar, rím og ljóð.
Ég er tár og gleði, reiði og sorg.
Ég er augnablikin sem saman mynda æviskeið.
Möguleikarnir, sem vísa mér betri leið.
Hver er ég, er mín spurning stærsta.
Ég leita að svarinu hér í mínu hjarta.
Líftími trés
Lífið er eins og tré,
við stækkum á hverjum degi innan frá og utan frá.
Skemmtun er eins og greinar
það er svo margt í boði
að við erum ekki viss hvað við eigum að gera.
Minningar eru eins og laufblöð
við missum margar en við erum alltaf að fá nýjar.
Kringum jólin við skreytum okkur
eins og við séum á árshátíð.
Moldin í kring er okkar beinagrind
án moldarinnar við deyjum.
Fólk sker okkur niður og meiðir okkur
án þess að blikka auga.
Heimurinn án trjáa
lætur allt breytast í hauga.
Við dauðann missum við allt
en við vitum alltaf að það kemur nýtt tré.
Hvað er að vera ég?
Ég er mín eigin einstök sál
Með tilfinningar og mikið hár
Hjarta mitt að innan slær
Frá toppi alveg niður í tær
Ég ávallt mitt besta reyni
Þótt ég stundum lendi á vandamáls steini
Ástin og kærleikurinn frá mér skína
Ég hann reyni öllum að sýna
Þakklát fyrir líf mitt er
Ég ber þá kæti hvert sem ég fer
Ég elska sjálfa mig svo heitt
Og brosi ávallt út í eitt.
Hvað er að vera ég?
Hvað er að vera ég?
Hvað er að vera ég.
Ef ég væri
Ef ég væri dýr
þá væri ég kýr.
Ég borðaði gras,
það væri nú ekki bras.
Ef ég væri api
þá væri ég alltaf í góðu skapi.
Ég klifraði í trjám
með mínum tám.
Ef ég væri geit
þá væri ég úti í sveit.
Ég væri með skegg
og klessti á vegg.
En ég er ekki dýr.
Ég er hvorki api né kýr.
Ég les og læri,
ég nota verkfæri.
Hvað er að vera ég?
Það getur verið þreytandi
að vera ég
þar sem ég ligg
og bíð þess að tíminn
haldi áfram
tíminn sem haf
og ég sem marglytta
sem skvampar um í lygnum öldum
og reyni að ýta mér áfram árangurslaust
stundum eru þær úfnari
rugla mig í ríminu
og kaffæra mig
endrum og eins eru þær himinháar
háværar
óværar
fleyta mér lengst áfram
og skyndilega þarf ég
að fullorðnast.
Hvað er að vera ég?
Það getur verið erfitt að vera til. Stundum er lífið auðvelt og þægilegt eins og að fljóta á spegilsléttu vatni, en á svipstundu gæti það orðið að ólgusjó af óheppni og erfiðleikum. Yfirleitt er lífið inn á milli hvorki ómögulegt né létt. Maður verður að læra að njóta þess, þó vantið sé ekki alltaf slétt. Það er partur af því að vera til.
Hvað er að vera ég?
Þegar þú lítur í spegil þá hefur þú val.
Þú hefur val um hvern þú vilt sjá.
Séð þú ytri myndina?
Persónuna sem aðrir sjá fyrst þegar horft er á þig.
Persónuna sem lifir í hugmyndaflugi annarra.
Eða sérðu nokkuð innri myndina?
Persónuna sem þú ein veist hver er.
Persónuna sem er.
Sönnu persónuna á bakvið grímuna.
Hvað er að vera ég?
Að ég vera er að vera þversögn,
Eins og stífluð frárennslislögn.
Smá spræna og beljandi stórfljót,
Stærðarinnar fjallgarður og lítið grjót.
Flókinn, fróður og tregur,
rökfastur og óútskýranlegur.
Eldsnöggur, fávís og einfaldur,
vísindalega sannaður galdur.
Í senn yfirvegaður og óður,
óskrifað blað og reynslusjóður.
Lygilega erfiður og laufléttur,
umkomulaus og vel í sveit settur.
Hreinskilinn í máli myrkur,
sjálfhverfur og meðvirkur.
Uggur og ótti, von og trú,
– stundum ég og stundum þú.
Hvað er að vera ég?
Í djúpri sjálfsskoðun spyr ég: „Hver er ég?“ Flókin blanda af minningum, draumum og valkostum., ég er summan af fortíðinni minni en er í sífelldri þróun. Ég er hláturinn sem rýfur þögnina, tárin sem hreinsa sál mína. Ég er andlitið sem ég sýni heiminum, en líka leyndarmálin sem ég geymi falin. Ég er leitandi, að eilífu í leit að sjálfsuppgötvun, ferðalag sem mótar mig dag frá degi. Ég er sjálfið sem breytist, vex og lærir ævilangt í leit að því að skilja ráðgátuna í tilveru minni.
Hvað er að vera ég?
Að vera ég
er eins og að ferðast í gegnum óljósan skóg.
Ég er unglingur
og það er undarleg blanda af skoðunum og tilfinningum sem mér fylgir.
Ég er enn að finna leiðina mína
en það er ekki alltaf einfalt.
Ég reyni að skoða heiminn með nýjum augum
og læra af öllu sem ég upplifi.
Ég er ekki alvöru þáttur, heldur er ég enn að mynda söguna mína,
og það er ágætt.
Ég er eins og teningur með nokkrar hliðar, þar sem hver hlið er annar persónuleiki.
Á einni hliðinni er ég ánægður með allt
en á annarri hliðinni get ég verið frekar afbrigðilegur.
Ég lít á framtíðina með hræðslu
en líka með spenningi
og vona að ég finni mína eigin leið til að blómstra í þessum nýja heimi sem er að verða ég.
Ég er einfaldlega unglingur
og það er nóg fyrir mig.
Hvað er að vera ég?
Ég elska að sofa. Mig langar að sofa alla daga,
mér er sama hvar, mig langar bara að sofa.
Ég er svaka latur en mig langar bara að vera í friði inni í
herbergi að sofa í friði. Ég fer á nokkrar æfingar í vikunni og
fer í sturtu en verð svo þreyttur að mig langar bara að sofa,
jafnvel í stól, sófa og rúmi, ég elska bara að sofa og hvíla mig.
Fjallið
Fjallið hvíta, fjallið bláa,
fjallið háa, fjallið allskonar.
Fjallið hvassa, fjallið langa,
fjallið flata, fjallið fallega.
Fjallið bratta, fjallið lága,
fjallið tóma, fjallið mjúka.
Fjallið reiða, fjallið feimna,
fjallið glaða, fjallið ég.
Hvað er að vera ég?
Að vera ég er að vera ég.
Það er eins einfalt og það er.
Ég er heilinn minn og ég er holdið utan um beinagrindina.
Ég er öll líffærin mín og blóðið.
En það mikilvægasta er það að ég er sálin og persónuleikinn.
Það er það sem gerir mig að mér.
Tilfinningarnar innra með mér gera mig að manneskju og án tilfinninga væri ég ekki ég.
Ég er það sem þið sjáið og það sem þið sjáið ekki.
Þannig er það með alla.
Við vitum aldrei hvað hver er nema að sjá hann að innan líka.
Hvað er að vera ég?
Ég vildi oft að ég væri…
- dugleg eins og pabbi
- umhyggjusöm eins og mamma
- hlý eins og amma
- fyndin eins og afi
- lífsglöð eins og systir mín
- sjálfbjarga eins og bróðir minn
- skemmtileg, traust og sterk eins og vinkonur mínar
- klár eins og kennarinn minn
Sumir segja að það sé fólkið í kringum okkur sem mótar mann sem persónu. Ef ég hef lært smá af öllum sem standa mér næst þá hlýt ég að vera nokkuð dugleg og umhyggjusöm, lífsglöð, svolítið hlý, frekar fyndin, geggjað skemmtileg, traust, sterk og pínu klár.
Er ég þá ekki bara frekar frábær?
Hvað er að vera ég?
Ég á mér nokkrar hliðar
dálítið eins og teningur.
Ég get verið glöð og ánægð,
döpur og fúl,
frjálsleg en varkár,
þreytt og stressuð,
einbeitt og ákveðin,
eða full af orku og adrenalíni.
Stundum get ég stjórnað hvaða hlið snýr upp
en stundum lætur teningurinn ekki stjórna sér.
Uppáhaldshliðin mín er gleði og ánægja
hún kemur oftast þegar ég er með fólki sem mér þykir vænt um.
Hvað er að vera ég?
Hvað er að vera ég?
Að vera ég getur verið svo ótalmargt.
Það getur verið það sem ég hef gert,
eða sagt.
Hver er að vera ég?
Spyr ég sjálfa mig.
Það er nú stór spurning.
Er það hvernig maður kemur fram við sig
og fólkið í kring.
Mismunandi fólk sér mig í mismunandi ljósi.
Einum getur fundist eitt og öðrum hitt.
En það sem skiptir mestu máli er ekki álit þitt,
heldur mitt.
Hver er ég?
Ég ligg á eldhúsgólfinu,
það er gólfhiti og ég finn ylinn streyma upp bakið á mér.
Reiðin sem býr innan í mér bráðnar og lekur frá líkamanum.
Vonbrigðin leysast upp og verða að gufu.
Hatursköggullinn í maganum á mér hverfur.
Ég horfi á innanverð augnlokin á mér.
Kærleikurinn byrjar að flæða upp æðarnar og upp í hjarta.
Ég finn hvernig ég endurnýjast.
Ég verð heil aftur.
Tilbúin í nýjan dag með nýjum tækifærum.
Hvað er að vera ég?
Hver er ég, spurning djúp og flókin,
ráðgáta sem býr í hjarta mínu.
Er ég skilgreind af því sem ég segi eða geri?
Eða af draumunum sem leiða mig áfram?
Er ég samansett af öllum fyrri mistökum mínum,
eða möguleikum sem í mér eru?
Ég veit ekki hvaða tilfinningar þetta eru,
stundum er erfitt að vera ég í þessum heimi.
Ég er bók með ólesnar síður,
strigi sem bíður eftir að litum verði dreift.
Ég er lag sem bíður þess að verða sungið,
ferðalag með ófundnum ævintýrum.
Svo hver ert þú, spyrðu með rannsakandi augum?
Ég er sál, andi og gjöf.
Ég er spurningin og ég er lykillinn
til að opna sannleikann um mig sjálfa.
Hvað er að vera ég?
Ef ég væri
kóngafiðrildi
-myndi ég flögra inn um
gluggann þinn
og minna þig á það
hvað lífið þitt er fallegt!
Ef ég væri
snæugla
-myndi ég sýna þér
að lífið er ævintýri
með því birtast óvænt
á pallinum þegar þú værir
að sötra morgunkaffið þitt
í mestu makindum úti í sólinni.
Ef ég væri
svartur labrador
-myndi ég sýna þér tryggð
með því að skíta bara
í garðinn hjá yndislega
nágranna þínum.
og ef ég væri
lítil, pirrandi, rauðeygð
ávaxtafluga
-myndi ég leyfa þér að
kremja mig
því ég elska þig svo mikið.
Stúlkan við matarborðið
Við matarborðið situr ung stúlka og veltir sér upp úr eigin hugleiðingum.
„Hver er ég?“ spyr stúlkan sig um leið og hún kjamsar kex og sötrar á mjólk.
Í skólanum læt ég eins og agnarsmá músartítla.
Ég skríð meðfram veggjunum og tísti pínulítið svo lítið beri á.
Heima er ég hins vegar ljón. Stórt og mikið ljón.
Og þetta ljón hefur sko hátt um sig og leyfir engum að abbast upp á sig.
Með vinum er ég svo smá eins og bjalla. Já, hálfgerð skellibjalla.
Með þeim flögra ég um og nýt þess að hlæja, brosa og blaðra.
„En hver er ég þá í alvöru?“ spyr stúlkan sig. „Hver er ég hér og nú?“
Því á stúlkan við matarborðið erfitt með að svara en eitt er þó víst, stúlkan sem þar situr er hvorki mús, ljón né einhver skellibjalla. Stúlkan sem þar situr er bara sú sem hún kýs að vera.
Víða er lesmál sem grípur augað og hafa mjólkurfernur verið hluti af því sem landinn les af, gjarnan við matarborðið. Mjólkursamsalan hefur um langa hríð lagt íslenskri tungu lið og nýtt mörg tækifæri til að vekja athygli á því hvað það getur verið gaman að leika sér, skapa og nota íslenskt mál á sem fjölbreytilegastan máta.
Senn munu fernurnar frá Mjólkursamsölunni hefja sig til flugs á ný. Í upphafi árs 2024 taka að birtast framúrskarandi textar úr samkeppni sem haldin er meðal grunnskólanema. Þetta verður vonandi öllum til skemmtunar og fræðslu en ekki síður til eflingar málinu sem við eigum öll saman.
Fleyg orð er að finna í bókmenntaarfinum en í fernufluginu munu heyrast nýjar raddir. Enda er verkefnið hugsað sem hvatning til þess að fleiri gefi orðunum vængi og styrki þannig undirstöður þessa tungumáls sem er dýrmætt í sjálfu sér, meðal annars vegna þess hversu fágætt það er.
Vonast er til þess að textarnir eftir höfundana ungu veki lesendur til vitundar um hvernig viðhorf okkar til málsins hafa áhrif á hvernig það dafnar.
Með því að sem flest, skrifi, tali og skapi á íslensku á tungumálið okkar bjarta framtíð. Tungumál lúta nefnilega öðrum lögmálum en flest annað í veröldinni og eflast bara og styrkjast eftir því sem þau eru meira notuð.
Eva María Jónsdóttir, varaformaður Íslenskrar málnefndar
Með því að gefa grunnskólanemum tækifæri til að velta fyrir sér og svara þessari spurningu vonumst við til að skapa megi skoðanaskipti milli nemenda, kennara, fjölskyldu og vina um það sem koma kann upp í hugann í leitinni að því svari sem hvert og eitt upplifir sem sitt rétta. Sömuleiðis má ætla að vinnan, sem lögð er í leit af þessu tagi, skili sér síðar í meiri meðvitund og skilningi á umhverfi sínu og öðru fólki. Vissulega eru engin svör röng eða rétt í samkeppni af þessu tagi og geta þau verið skemmtileg, sannfærandi, óvænt, hrífandi, einlæg, kröftug, lúmsk eða sláandi einföld, hvert á sínum forsendum. Umfram allt verða þau að vera sönn fyrir það sem skrifar.
Við mat sitt mun dómnefnd einkum horfa til eftirfarandi:
- Hvað er verið að segja? Er innihaldið áhugavert eða vekjandi, hrífandi, einlægt, djarft, óvænt? (Athugið að taka ekki slíka upptalningu of bókstaflega, hér er aðeins verið að gefa dæmi um þætti sem geta haft áhrif á mat dómnefndar en þeir eru vissulega misjafnir, allt eftir eðli textans.)
- Einlægni. Notar nemandinn sína eigin rödd? Er um persónulega sýn að ræða, finnur lesandinn fyrir raunverulegu hjarta að baki textanum?
- Skýrleiki. Skilar innihaldið sér á sannfærandi hátt? Er hugsunin skýr og tær?
- Málnotkun. Er kröftugt krydd eða leikur í textanum, skemmtilegur snúningur, óvænt orðanotkun eða hrífandi einfaldleiki? Og allt á íslensku?
Höfundar þess efnis, sem valið hefur verið til birtingar á mjólkurfernum, hljóta viðurkenningu en að auki eru vegleg peningaverðlaun veitt fyrir þrjá bestu textana að mati dómnefndar þar sem 1. sæti hlýtur 300.000 kr., 2. sæti 200.000 kr. og 3. sæti 100.000 kr. Vert er að taka fram að verðlaunaféð rennur óskipt til höfundanna.
Sérstakur verndari keppninnar er Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra Íslands og átti hann jafnframt sæti í dómnefnd ásamt fulltrúum frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Íslenskri málnefnd, starfsfólki í markaðsdeild Mjólkursamsölunnar og auglýsingastofunni EnnEmm.