Áfastir tappar á fernum frá MS
Frá og með 3. júlí 2024 verður lögfest á Íslandi skilyrði um áfasta tappa og lok á einnota drykkjarílátum og -umbúðum úr plasti sem sett eru á markað hér á landi. Mjólkursamsalan framleiðir fjölbreytt úrval vara sem þessi tilskipun hefur áhrif á og munu áfastir tappar taka við þeim gömlu á næstu vikum og mánuðum. Nýju tapparnir eru þægilegir í notkun en aðeins þarf að hlusta eftir litlum smelli áður en hellt eða drukkið er úr fernunni og eiga tapparnir þannig að fylgja umbúðunum alla leið í endurvinnsluflokkun.
Nú verða tapparnir fastir á fernunum okkar til að draga úr plastrusli í umhverfinu.
- Af hverju er MS að breyta töppunum á vörunum sínum?
Um er að ræða innleiðingu á ákvæði frá Evrópuþingi og ESB* þar sem leitast er við að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið.
*(1. mgr. 6. gr. 2019/904 frá 5. júní 2019)
- Hvað þýðir þetta?
Þegar tilskipunin tekur gildi má einungis setja einnota drykkjarílát og -umbúðir úr plasti með tappa eða lok úr plasti á markað ef tappinn eða lokið er áfast vörunni á meðan fyrirhuguð notkun hennar stendur yfir. Tilgangurinn með ákvæðinu er að koma í veg fyrir að tappar og lok af einnota drykkjarílátum og -umbúðum endi á víðavangi og úti í umhverfinu.
Leyfum umhverfinu að njóta vafans.