Beint í efni
En

Gotti tilnefndur til FÍT verðlaunanna

Tilnefningar til FÍT verðlaunanna voru tilkynntar á dögunum en það er félag íslenskra teiknara sem stendur að verðlaununum sem ætlað er að viðurkenna þau verk sem skara fram úr á Íslandi í grafískri hönnun og myndlýsingum. Í ár bárust hvorki fleiri né færri en 428 innsendingar í 17 flokkum og er gaman að segja frá því að nýja auglýsingin um ostastrákinn Gotta er tilnefnd í flokknum hreyfigrafík.

Auglýsingastofan Hvíta húsið á heiðurinn að nýju auglýsingunni og óhætt að segja að hönnunarteymi stofunnar hafi tekið vel á móti Gotta þegar hann bankaði upp á. „Þegar við fengum það verkefni að endurvekja auglýsingarnar um Gotta langaði okkur til að gefa honum ferskara yfirbragð og færa hann nær nútímanum. Við bættum nýrri vídd við frásögnina um ostakrúttið Gotta, sem ferðast um allt eldhúsið á leiðinni á sinn stað, framan á ostaumbúðirnar. Lagið um Gotta var líka tekið upp aftur með nýrri kynslóð söngvara og vakti verkefnið mikla gleði innan stofunnar jafnt sem utan enda ekki á hverjum degi sem við fáum að endurvekja gamlan vin undir textanum sem hefur verið sönglaður af fólki á öllum aldri í áraraðir.“

Á meðfylgjandi mynd má sjá hreyfihönnuðinn og teiknarann Danna, Björn Daníel Svavarsson, að störfum og verður spennandi að sjá hver hreppir hnossið þegar verðlaunin verða afhent í lok febrúar.

Hvíta húsið - Gotti borðar ost

  • Hreyfihönnuður og teiknari: Björn Daníel Svavarson
  • Grafískur hönnuður: Anna Pálína Baldursdóttir
  • Umsjónarhönnuður: Helga Valdís Árnadóttir
  • Handritsgerð: Anna Pálína Baldursdóttir og Sigrún Hlín Sigurðardóttir
  • Framleiðsla: Guðrún Jónsdóttir
  • Hljóðsetning: Jóhann Ómarsson
  • Söngur: Úlfur Dagsson og Halldóra Baldvinsdóttir
  • Útsetning á lagi: Davíð Antonsson
  • Viðskiptastjóri: Dröfn Þórisdóttir