Havarti heitir nú Hávarður
Í byrjun júlí breytast nöfnin á Óðalsostunum Havarti og Havarti krydd í Hávarð og Hávarð krydd. Nafnabreytingingarnar eru tilkomnar vegna samkomulags Íslands og Evrópusambandsins um vernd á afurðaheitum en allur ostur sem ber nafnið Havarti þarf nú að vera framleiddur í Danmörku. Því var ákveðið að gefa ostunum séríslensk nöfn og urðu Hávarður og Hávarður krydd fyrir valinu þar sem nöfnin mynda skemmtileg tengsl við fyrirrennara sína.
Hávarður og Hávarður krydd eru því nýir arftakar Óðals Havarti ostanna en ostarnir hafa notið mikilla vinsælda meðal íslenskra ostaunnenda frá því að framleiðsla hófst hér á landi árið 1980. Hávarður er mjúkur og bragðmildur en verður bragðmeiri með aldrinum og Hávarður krydd er einnig mjúkur og mildur en bragðbættur með sætri papriku og votti af piparaldinum.
Við bjóðum þá bræður, Hávarð og Hávarð krydd, velkomna í Óðalsostafjölskylduna.