Klói í Kanada
Uppáhaldskötturinn okkar, sjálfur Klói, hefur verið á ferð og flugi um land allt í sumar í tilefni 50 ára afmælis Kókómjólkur og óhætt að segja að hann hafi vakið lukku á hverjum stað. Klói gerði sér svo lítið fyrir og lagði land undir fót á dögunum þegar hann flaug alla leið til Kanada til að vera viðstaddur árleg hátíðarhöld í Gimli í Manitóbafylki þar sem Íslendingadagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert. Klói tók þátt í skrúðgöngu, heimsótti sumarbúðir, kíkti á ströndina og gaf öllum sem vildu knús og Kókómjólk. Hátíðin, sem stendur yfir í nokkra daga, hefur verið haldin árlega frá 1890 og er henni ætlað að viðhalda sambandi Íslendinga og fólks af íslenskum uppruna í Kanada en meðal annarra gesta á hátíðinni var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir úr heimsókn Klóa til Kanada.