
Kolbrún með kúmeni kætir bragðlaukana
Ostakjallarinn kætir bragðlauka sannra ostaunnenda með ánægju í hverjum bita en úr kjallaranum koma reglulega nýir og spennandi ostar sem fólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara. Nokkrir ostar eru í föstu vöruúrvali en aðrir ostar eru framleiddir í takmörkuðu magni og því um að gera að vera vakandi fyrir nýjungum svo maður missi ekki af spennandi ostum.
Kolbrún með kúmeni er nýjasti meðlimur Ostakjallara fjölskyldunnar en hér er á ferðinni einstakur og áhugaverður ostur sem vekur forvitni bragðlaukanna. Hið hlýja, kryddaða bragð kúmenfræjanna í bland við margslungna bragðtóna ostsins gerir Kolbrúnu að ómótstæðilegum kosti fyrir unnendur íslenskra osta.
Kúmenosturinn smakkast dásamlega með góðu brauði en ekki síður einn og sér og því um að gera að prófa hvort tveggja. Ef þú þekkir einhverja Kolbrúnu mælum við með að gefa henni gómsæta nöfnu úr Ostakjallaranum áður en tækifærið rennur þér úr greipum þar sem osturinn verður aðeins í verslunum í nokkra mánuði.