Beint í efni
En

Akureyri og Egilsstaðir með hæstu einkunn í BRC úttekt

Þær frábæru fréttir voru að berast í hús að MS Akureyri og MS Egilsstöðum hlutu AA í einkunn í nýlegri BRC úttekt sem fram fór í janúar og er hér um að ræða hæstu einkunn í boðaðri úttekt. Þetta er sjötta BRC úttekt sem báðar starfsstöðvar hafa staðist með afburðaeinkunn en slíkum árangri er ekki hægt að ná nema með samstilltu átaki og virkri þátttöku allra starfsmanna. Hér er um að ræða enn eina staðfestinguna á því frábæra gæðastarfi sem starfsfólk hefur unnið að og setur hún MS í hóp fremstu fyrirtækja í heiminum í þessum efnum.

Fyrir þau sem ekki vita er BRC alþjóðlega viðurkenndur gæðastaðall undir merkjum GFSI (Global Food Safety Initiative). Áhersluþættir staðalsins eru á matvælaöryggi, gæði framleiðsluhátta, heilnæmi afurðar og gæði. Starfsfólk á Akureyri og Egilsstöðum hefur lagt mikla vinnu í að viðhalda staðlinum undanfarin ár en hann var innleiddur á báðum afurðarstöðvum árið 2020.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Egil Thoroddsen, gæðastjóra og Kristínu Hrund Kjartansdóttur, verkefna- og gæðastjóra, sem stödd eru á BRC gæðaráðstefnu á Ítalíu að sækja sér frekari þekkingu í gæðamálum matvælafyrirtækja. Við erum þess fullviss um að þau komi full af fróðleik og þekkingu heim til Íslands og miðli áfram til samstarfsfólks sem mun án efa nýtast MS vel á komandi misserum.