Beint í efni
En
Teiknisamkeppni 4. bekkinga skólaárið 2021-2022

Teiknisamkeppni 4. bekkinga skólaárið 2021-2022

Alþjóðlegi Skólamjólkurdagurinn er árlegur viðburður sem haldinn er hátíðlegur víða um heim þann 29. september. Líkt og áður er það stofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO (Food and Agriculture Organization) sem hvetur til hátíðarhalda á þessum degi og hér á landi markar dagurinn upphaf árlegrar teiknisamkeppni þar sem öllum 4. bekkingum stendur til boða að taka þátt. Samkeppnin hefur notið mikilla vinsælda meðal nemenda og kennara í áraraðir, en menntamálaráðherrar hafa í gegnum tíðina talað um mikilvægi keppninnar og tekið þátt í vali á verðlaunamyndunum undanfarin ár.

Myndefni nemenda er frjálst en má þó gjarnan tengjast mjólk og íslensku sveitinni eða hollustu og heilbrigði en umfram allt viljum við gefa ímyndunaraflinu og sköpunargáfunni lausan tauminn svo krakkarnir fái að sýna það sem í þeim býr. Veitt verða verðlaun fyrir 10 bestu myndirnar að mati dómnefndar og fær hver verðlaunahafi 40.000 kr. sem renna í bekkjarsjóði viðkomandi.

Að jafnaði berast um 1.200 myndir í keppnina frá nemendum alls staðar af landinu en í fyrra var slegið þátttökumet þegar tæplega 2.000 myndir voru sendar inn og verður gaman að sjá hvort einhver met falli í ár.

Myndum skal skilað á A3 blaði fyrir 7. janúar 2022 og merkja: Mjólkursamsalan – Teiknisamkeppni, Bitruhálsi 1, 110 Reykjavík.

Myndir sem berast í keppnina verða ekki sendar til baka að keppni lokinni en verðlaunamyndir eru skannaðar inn og sendar skólastjórnendum á rafrænu formi.