Beint í efni
En

Teiknisamkeppni Skólamjólkurdagsins

Líkt og undanfarin ár er Alþjóðlegi Skólamjólkurdagurinn haldinn hátíðlegur víða um heim þann 25. september og nú sem fyrr er það stofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO (Food and Agriculture Organization) sem hvetur til hátíðarhalda af því tilefni. Þessa dags er beðið með mikilli eftirvæntingu en hann markar upphaf árlegrar teiknisamkeppni 4. bekkinga sem notið hefur mikilla vinsælda meðal nemenda og kennara um árabil. Mennta- og barnamálaráðherrar hafa tekið þátt í vali á verðlaunamyndunum til margra ára og talað um mikilvægi keppna á borð við þessa fyrir skólasamfélagið en að jafnaði berast um 1.300 myndir í keppnina frá nemendum alls staðar af landinu.

Myndefnið er eins og áður frjálst en einkar vinsælt hefur verið að tengja það íslensku sveitinni, hollustu, heilbrigði og ýmis konar hreyfingu. Umfram allt viljum við að börnin gefi ímyndunaraflinu og sköpunargáfunni lausan tauminn og sýni hvað í þeim býr enda til mikils að vinna. Í mars á næsta ári verða veitt verðlaun fyrir 10 bestu myndirnar að mati dómnefndar og hver mynd verðlaunuð með 40.000 kr. peningagjöf frá MS sem rennur óskipt í bekkjarsjóð viðkomandi. Með þessu viljum við stuðla að því að bekkurinn geti nýtt upphæðina í að gera sér glaðan dag saman í samráði við umsjónakennara, bekkjarfulltrúa og/eða skólastjórnendur.

Myndum skal skilað á A3 blaði fyrir 17. janúar 2025.
Mjólkursamsalan – Teiknisamkeppni, Bitruhálsi 1, 110 Reykjavík.

Nánari upplýsingar og vinningsmyndir síðustu ára má skoða á vefsíðu keppninnar.