Beint í efni
En

Þurfum að tryggja fæðuöryggi

Erna Bjarnadóttir hagfræðingur Mjólkursamsölunnar er sérmenntuð á sviði landbúnaðar og er með áratuga starfsferil að baki í vinnu fyrir hagsmuni landbúnaðar og bænda í landinu. Hún segir mikilvægt að tryggja fæðuöryggi Íslands á óvissutímum.

Meðfylgjandi grein birtist í Iðnþingsblaðinu 13.3.2025.

Mjólkursamsalan (MS) er stærsta vinnslufyrirtæki mjólkurafurða á Íslandi og gegnir lykilhlutverki í að tryggja að neytendur um allt land hafi aðgang að ferskum, hágæða mjólkurvörum. MS vinnur náið með kúabændum og safnar árlega um 150.000 tonnum af mjólk frá bændum um allt land til vinnslu í fjölbreyttar mjólkurafurðir. Fyrirtækið rekur öflugt flutningakerfi þar sem yfir 100 flutningabílar eru á ferðinni á hverjum degi til að tryggja skilvirka og örugga dreifingu mjólkurvara um land allt úr vöruhúsinu á Bitruhálsi, sem að líkindum er einn stærsti kæliskápur á landinu. „Með sterkri áherslu á gæði, sjálfbærni og nýsköpun styður MS við íslenskan landbúnað og tryggir framboð á hágæða mjólkurafurðum um allt land,“ segir Erna Bjarnadóttir hagfræðingur Mjólkursamsölunnar.

Breytt heimsmynd kallar á meira öryggi

Erna tók þátt í pallborðsumræðum á Iðnþingi 2025 um samfélagslegan viðnámsþrótt þar sem hún lagði áherslu á hlutverk innlendrar matvælaframleiðslu. „Þegar vá hefur steðjað að, svo sem efnahagshrun, covid-faraldurinn eða annað, er yfirleitt fyrst spurt um hvað til sé af mat. Að þessu þarf líka að huga og undirbúa þegar allt leikur í lyndi,“ segir Erna og bætir við að svokallaðir svartir svanir muni halda áfram að hlamma sér niður öðru hverju.

Hvað þarf að gera til að tryggja fæðuöryggi og styrkja matvælaframleiðslu í landinu?

„Við þurfum að veita bændum skýra sýn um hvað tekur við þegar núgildandi búvörusamningar renna út og tryggja að þau stjórntæki sem beitt verður stuðli að áframhaldandi framleiðslu íslenskra landbúnaðarafurða. Áfram verði unnið með það markmið sem er að finna í núgildandi búvörulögum um að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu og að góð afkoma bænda sé tryggð,“ segir Erna.

Þegar kemur að þeim atriðum í starfsumhverfi fyrirtækja í matvælaiðnaði sem gengur vel segir hún útflutning á skyri og skyrafurðum hafa aukist og sé á góðri leið núna. „Góð sala á mjólkurafurðum vex ár frá ári. Auknar afurðir kúastofnsins og framfarir í kynbótum ganga einnig vel sem og áframhaldandi lækkun vaxta sem er öllum afar þýðingarmikil. Orkuskipti innan okkar fyrirtækis, bæði í flutningaþættinum og vinnsluferlum, eru á góðri leið, en við erum eina fyrirtækið í heiminum svo við vitum sem notar ekki olíu við framleiðslu á undanrennudufti.“

Landbúnaður samofinn sjálfsmynd hverrar þjóðar

Hvað þarf að setja fókusinn á að breyta núna fyrir iðnaðinn?

„Stjórnvöld þurfa að gefa skýrt til kynna vilja sinn um að innlend mjólkurframleiðsla sinni áfram hið minnsta núverandi markaðshlutdeild fyrir mjólkurvörur. Það þarf að bæta vegakerfið en við reiðum okkur mjög á það bæði við söfnun hráefnis og dreifingu á vörum um land allt. Eins þarf að bæta dreifikerfi raforku og tryggja framboð á orku til framtíðar á viðráðanlegu verði fyrir bændur og fyrirtæki. Þá þarf að standa við þau fyrirheit sem bændum eru gefin í búvörusamningum og milliríkjasamningum sem tryggja stöðu innlendrar framleiðslu gagnvart innflutningi. Óskýrum skilaboðum um stuðning við innlenda matvælaframleiðslu þarf að eyða,“ segir Erna Bjarnadóttir hagfræðingur Mjólkursamsölunnar og minnir á að landbúnaður sé samofinn sjálfsmynd hverrar þjóðar. „Við eigum að vera stolt af okkar landbúnaði.“


Ljósmyndir/BIG