Beint í efni
En

Mjólk - náttúruleg hollustuvara

Mjólk er ein næringarríkasta fæðutegund sem völ er á. Hún er rík af próteinum, sem og vítamínum og steinefnum eins og hinu mikilvæga byggingarefni beina og tanna, kalki. Enda hefur mjólk um langt skeið verið undirstöðumatvæli íslensku þjóðarinnar og hafa ýmsir bent á að án hennar hefði líf vart þrifist hér á mörkum hins byggilega í gegnum aldirnar.

Náttúrulegir hollustueiginleikar mjólkur og mjólkurafurða eru vel studdir af vísindum og undanfarin misseri hefur áhugi á próteinríkum mjólkurafurðum aukist. Enn fremur hefur áhugi vísindasamfélagsins á mjólkurvörum sem heilsuvöru farið vaxandi þar sem um er að ræða vöru með náttúrulega innbyggðum hollustueiginleikum. Neikvæð ímynd mjólkurfitu, sem haldið var stíft á lofti síðustu áratugi af hálfu næringarfræðinga og annarra sérfræðinga, hefur nú lotið í lægra haldi fyrir þeirri staðreynd að það hefur verið vísindalega sannað að neysla mjólkurvara hefur raunveruleg heilsubætandi áhrif

Samkvæmt nýlegum rannsóknum, þar sem tæplega 34.000 konum á aldrinum 48-83 ára var fylgt eftir í rúm 11 ár, var sýnt fram á að samband heildarneyslu mjólkurvara og neyslu osta var neikvætt við hjartaáföll, þ.e. neysla mjólkurafurðanna hafði verndandi áhrif. Önnur rannsókn sýndi jafnframt að meiri neysla mettaðrar mjólkurfitu var tengd minni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Þessar niðurstöður styðja þörf á frekari rannsóknum á áhrifum mjólkurfitu, einstakra fitusýra í mjólk og mjólkurvara í heild á hjarta- og æðasjúkdóma, sem vonandi verður unnið að á komandi misserum.

Heimildir

  • Dairy Industries International, 1;2014
  • Journal of Nutrition, 11;2012 og American Journal of Public Health, 7;2013