Mjólkurofnæmi
Mjólkurofnæmi er ein algengasta tegund ofnæmis hjá börnum. Það kemur yfirleitt fram á fyrsta ári, er líklegra hjá börnum sem fengið hafa kúamjólk fyrir þriggja mánaða aldur og eldist af flestum börnum fyrir þriggja ára aldur. Einstaka börn losna þó ekki við ofnæmið og hafa það fram á fullorðinsár, en það eru frekar börn með ættarsögu ofnæmis og þau sem hafa ofnæmi fyrir mörgum matvörum. Samkvæmt þeim fáu rannsóknum sem gerðar hafa verið virðist tíðni mjólkurofnæmis vera svipuð hér og á hinum Norðurlöndunum, eða um 2-5%.
Hvað veldur mjólkurofnæmi?
Mjólkurofnæmi er orsakað af próteinum í mjólk. Það virðast einkum vera kaseinin í mjólk ásamt mysupróteininu beta-laktóglóbúlíni sem valda ofnæmisviðbrögðum. Það sem gerist í líkamanum er að ónæmiskerfið álítur próteinið vera óvinveitt líkamanum og ræðst gegn því og við það koma fram þau einkenni sem myndast við ofnæmiskastið.
Einkenni mjólkurofnæmis geta verið margvísleg og eru mjög einstaklingsbundin. Hjá sumum koma einkenni strax, en hjá öðrum mörgum klukkustundum eftir að mjólkur eða mjólkurvara hefur verið neytt. Mjólkurofnæmi lýsir sér meðal annars í húðútbrotum, niðurgangi, uppköstum og magakrömpum. Einnig geta komið fram öndunarerfiðleikar og slím í öndunarfærum. Einnig hefur mjólkurofnæmi verið tengt við harðar hægðir hjá börnum. Mjólkurofnæmi er þó sjaldan svæsið og ólíklegt að valdi ofnæmislosti, eins og til dæmis getur gerst með hnetuofnæmi.
Mjólkurofnæmi er hægt að greina með húðprófi og einnig mælingum á immúnóglobíni af gerð E (IgE) í blóði. Algengt er að á undan greiningu sé tekin nákvæm fæðissaga og einkenni sem koma fram skráð. Að auki er hægt að gera stöðluð þolpróf gagnvart mjólk á þeim sem einkenni koma fram hjá fljótlega eftir neyslu. Þá er viðkomandi gefin annaðhvort venjuleg mjólk eða mjólk þar sem búið er að brjóta prótein niður í amínósýrur, en aðeins venjulega mjólkin á að kalla fram viðbrögð. Ætíð skal leita læknis til að fá greiningu á orsökum ofnæmis.
Hvað þurfa einstaklingar með mjólkurofnæmi að varast?
Almennt er ráðlagt að útiloka mjólk og allar afurðir sem innihalda mjólk úr fæði þeirra sem hafa mjólkurofnæmi. Þar sem mjólk er gríðarlega mikilvæg næring fyrir ungviði er mjög mikilvægt að útiloka ekki mjólkurmat úr fæðinu fyrr en staðfest hefur verið með ofnæmisprófi hjá lækni að um mjólkurofnæmi sé að ræða. Til eru ákveðnar þurrmjólkurgerðir þar sem prótein hafa verið brotin niður í amínósýrur (t.d. Pregestimil og Nutramigen) og ættu þær að vera öruggar m.t.t. mjólkurofnæmis. Varast skyldi þó tegundir sem ekki eru fullkomlega brotnar niður í amínósýrur þar sem próteineiningar geta verið til staðar sem kalla fram viðbrögð. Einnig er ekki ráðlagt að gefa börnum mjólk annarra spendýra en kúa þar sem próteinsamsetning þeirra er lík kúamjólkinni. Ennfremur er mögulegt að börn þrói með sér ofnæmi fyrir sojamjólk sem stundum er notað í stað kúamjólkur.
Hafa ber í huga að mjólk leynist víða í matvælum, t.d. brauði, kexi og öðrum kornvörum, sem og alls konar öðrum tilbúnum matvörum og því þarf ávallt að lesa innihaldslýsingar á umbúðum til að tryggja að mjólkurprótein komist ekki í fæðuna og geti valdið ofnæmisviðbrögðum.
Besta vörnin gegn mjólkurofnæmi er að hafa börn á brjósti að minnsta kosti 3 fyrstu mánuði ævinnar og helst lengur og byrja ekki strax að gefa venjulega kúamjólk eftir að móðir kýs að hætta brjóstagjöf heldur þurrmjólk og svo stoðmjólk (frá 6 mánaða aldri) með minnkuðu próteininnihaldi miðað við kúamjólk. Þó er mögulegt að börn fái ofnæmi úr brjóstamjólk drekki móðirin mikla kúamjólk.
Börn úr ofnæmisfjölskyldum eru líklegri til að fá ofnæmi og hafa rannsóknir sýnt að hægt er að draga verulega úr ofnæmishættu ef börnunum er ekki gefin kúamjólk allt fyrsta árið heldur brjóstamjólk a.m.k. fyrstu 6 mánuðina og síðan þurrmjólk þar sem mjólkurpróteinin hafa verið brotin niður í amínósýrur.
- Höfundur greinarinnar er dr. Björn S. Gunnarsson, matvæla- og næringarfræðingur.