Beint í efni
En

Skráargatið - einfalt að velja hollara

Skráargatið er norræn merking fyrir þær matvörur sem teljast hollastar í sínum fæðuflokki. Því er ætlað að auðvelda neytendum að velja sér holla matvöru. Þær vörur sem mega bera skráargatsmerkið uppfylla skilyrði sem eru sett um innihald sykurs, salts, fitu og trefja í vörunum.

Eftirfarandi skilyrði gilda um mjólkurvörur:

Mjólk og sýrðar mjólkurvörur sem ætlaðar eru til drykkjar. Vörurnar eru án viðbætts bragðs.

  • Fita hámark 0,7 g/100 g

Sýrðar mjólkurvörur sem ekki eru ætlaðar til drykkjar. Vörurnar eru án viðbætts bragðs.

  • Fita hámark 1,5 g/100 g

Sýrðar mjólkurvörur sem ekki eru ætlaðar til drykkjar. Vörurnar eru með viðbættu bragði. Einnig tilsvarandi laktósalausar vörur.

  • Fita hámark 1,5 g/100 g
  • Viðbættar sykurtegundir hámark 4 g/100 g.

Vörur sem eru blanda af mjólk og rjóma og eru notaðar á sama hátt og rjómi og tilsvarandi sýrðar vörur. Vörurnar eru án viðbætts bragðs. Einnig tilsvarandi laktósalausar vörur.

  • Fita hámark 5 g/100 g

Vörur sem eru blanda af mjólk og rjóma og eru notaðar á sama hátt og rjómi og tilsvarandi sýrðar vörur. Vörurnar eru án viðbætts bragðs. Einnig tilsvarandi laktósalausar vörur.

  • Fita hámark 5 g/100 g
  • Sykurtegundir hámark 5 g/100 g
  • Salt hámark 0,8 g/100 g

Ostar, aðrir en ferskostar. Vörurnar geta verið með viðbættu bragði.

  • Fita hámark 17 g/100 g
  • Salt hámark 1,6 g/100 g

Ferskostar og samsvarandi vörur. Vörurnar geta verið með viðbættu bragði.

  • Fita hámark 5 g/100 g
  • Salt hámark 0,9 g/100 g
  • Viðbættar sykurtegundir hámark 1 g/100 g

Sjá nánar reglugerð um notkun skráargatsins við markaðssetningu matvæla (428/2015).

Hér fyrir neðan má finna umfjöllun frá Embætti landlæknis um skráargatið:

Skráargatið er opinbert merki sem finna má á umbúðum matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna. Markmiðið með Skráargatinu er að neytendur geti á einfaldan hátt valið hollari matvöru.

Vörur sem bera merkið eru hollari en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla skilyrði til að bera merkið. Auk þess að vera upplýsandi fyrir neytendur hvetur slíkt merki matvælaframleiðendur til að þróa hollari vörur og stuðlar þannig að auknu úrvali af hollum matvælum á markaði.

Val þitt á matvörum hefur áhrif á heilsu þína

Skráargatið auðveldar hollara val og þar með að fara eftir opinberum ráðleggingum um mataræði, því matvörur sem bera merkið verða að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna:

  • Minni og hollari fita
  • Minni sykur
  • Minna salt
  • Meira af trefjum og heilkorni

Skráargatið er samnorrænt opinbert merki

Skráargatið hefur verið í notkun í Svíþjóð í tæplega 20 ár og er orðið vel þekkt þar í landi. Árið 2009 var merkið einnig tekið upp í Noregi og Danmörku og varð þannig að samnorrænu opinberu merki en skilgreiningarnar á bak við Skráargatið voru þróaðar áfram og eru enn í endurskoðun.

Slíkt samstarf er í samræmi við þróunina almennt á sviði næringar í norrænu löndunum, t.d. eru öll Norðurlöndin með samnorrænar næringarráðleggingar (e. Nordic Nutrition Recommendations) sem skilgreiningar fyrir Skráargatið byggja á.

Reglugerð um upptöku Skráargatsins hér á landi tók gildi haustið 2013. Á Íslandi standa Matvælastofnun og Embætti landlæknis á bak við Skráargatið og Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sjá um að farið sé eftir reglum um notkun merkisins. Framleiðendum er frjálst að nota Skráargatið á þær vörur sem uppfylla skilyrði til að bera merkið.

Heimild: Landlæknisembættið, http://www.landlaeknir.is/skraargat/

Vörur MS sem bera skráargatsmerkið eru eftirtaldar:

  • Undanrenna
  • Fjörmjólk
  • Kotasæla
  • ÍSEY skyr hreint
  • Létt ab-mjólk hrein
  • Létt súrmjólk hrein
  • Góðostur 17%
  • Ísey skyr skvísur