D-vítamínbætt mjólk - sólarvítamín í hverjum sopa
Í einu glasi af D-vítamínbættri mjólk er einn þriðji af ráðlögðum dagskammti. Á norðlægum slóðum þar sem sólar nýtur ekki við í miklum mæli stóran hluta árs er mikilvægt að fá D-vítamín úr fæði.
„Mjólk er einstaklega góður kalkgjafi og að öllum líkindum ein næringarríkasta matvara sem völ er á en hún er góð uppspretta kolvetna, próteina, vítamína og seinefna,“ segir Björn S. Gunnarsson næringarfræðingur og vöruþróunarstjóri MS. Undanfarin misseri hefur nokkuð borið á umræðu þess efnis að stóran hluta ársins fái Íslendingar ekki nægilegt D-vítamín og á það við um fleiri þjóðir á norðlægum slóðum þar sem sólar nýtur ekki við í miklum mæli. D-vítamín er mikilvægt beinheilsu þar sem það örvar frásog kalks úr meltingarvegi, stuðlar að eðlilegum kalkstyrk í blóði og styður við beinvöxt hjá börnum og hjálpar til við að viðhalda styrk beina hjá fullorðum. Þegar sólar nýtur ekki við og eins og yfir vetrartímann á Íslandi er mikilvægt að fá D-vítamín úr fæði, en afar fá matvæli innihalda vítamínið frá náttúrunnar hendi, en það eru helst lýsi, og feitur fiskur.
„Nokkur ár eru liðin síðan MS setti D-vítamínbætta léttmjólk á markað og tóku neytendur henni einkar vel,“ segir Björn og bætir við að í framhaldinu hafi D-vítamínbætt nýmjólk bæst í hópinn. „Þessi skref voru tekin eftir ráðleggingar frá Embætti landlæknis og rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala til að bregðast við kalli neytenda um meira val í vítamínbættum vörum og jafnframt til að auka D-vítamíninntöku sem er nokkuð lág í mörgum hópum.“ Skortur á D-vítamíni er sérstaklega algengur yfir vetrarmánuðina en eins breytilegt og veðurfarið á Íslandi er er sumartíminn oft ekkert mikið betri. Um er að ræða alvarlegt vandamál bæði meðal barna og fullorðna þar sem skortur á vítamíninu getur valdið beinkröm eða vansköpun beina vegna kalkskorts í börnum og hjá fullorðnum getur hann valdið beinþynningu, beinmeyru, vöðvarýrnum og tannskemmdum.
„Mikilvægt er að leita leiða til að bæta mataræði íslenskra barna sem og fullorðinna og er D-vítamínbætt mjólk því góður kostur. Mikilvægt er að vörur sem eru algengar á borðum landsmanna innihaldi þetta lífsnauðsynlega vítamín og því getur glas af D-vítamínbættri mjólk með morgunmatnum hjálpað okkur að takast á við daginn með bros á vör,“ segir Björn að lokum.