Stoðmjólk hefur jákvæð áhrif á járnbúskap barna
Samkvæmt nýrri rannsókn Rannsóknarstofu í næringarfræði um næringu ungbarna kemur fram að miklar breytingar hafa orðið til hins betra á járnbúskap ungabarna. Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins var að kanna járnbúskap íslenskra 12 mánaða ungbarna og bera saman við rannsókn sem gerð var fyrir um 10 árum síðan þar sem fram kom dapurt ástand járnbúskap til samanburðar við ungabörn í nágrannalöndum. Þessi nýja rannsókn leiddi í ljós að ekki fannst járnskortur í ungabörnum og er það rakið til þess að börnin eru í miklu meira mæli nærð á stoðmjólk. (Frétt í Morgunblaðinu 16. maí 2008).
Hvað er Stoðmjólk?
Stoðmjólk er unnin úr íslenskri kúamjólk og mælt er með notkun hennar í stað nýmjólkur fyrir börn frá sex mánaða til tveggja ára aldurs. Við framleiðslu hennar er tekið sérstakt tillit til næringarþarfa ungra barna. Hún er líkari móðurmjólk að samsetningu en venjuleg kúamjólk og tryggir betur næringarbúskap barna á þessu aldursskeiði. Stoðmjólk hentar vel til notkunar samhliða brjóstagjöf, en mælt er með áframhaldandi brjóstagjöf svo lengi sem hugur stendur hjá móður. Stoðmjólk er líkari móðurmjólk að samsetningu en venjuleg kúamjólk og hæfir því barninu betur.
Stoðmjólkin hefur verið þróuð að beiðni og í samvinnu við sérstakan starfshóp sérfræðinga um næringu ungbarna á vegum Manneldisráðs. Til að tryggja betur næringarþörf barna frá 6 mánaða til 2 ára aldurs er mælt með að börn á þessu aldursskeiði drekki Stoðmjólk í stað nýmjólkur.
Fyrir börn frá 6 mánaða til 2 ára aldurs
Stoðmjólk er mjólk sem ætluð er börnum frá 6 mánaða til 2 ára aldurs. Hún hefur verið þróuð af Mjólkursamsölunni að beiðni og í samvinnu við samstarfshóp um næringu ungbarna á vegum Manneldisráðs, Landlæknisembættisins, barnalækna við Landspítala-Háskólasjúkrahús, félags barnahjúkrunarfræðinga og félags heilsugæsluhjúkrunarfræðinga. Í starfshópnum sátu fulltrúar ofangreindra aðila, sérfræðingar frá Miðstöð heilsuverndar barna og rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala-Háskólasjúkrahús, auk þess sem málið fékk stuðning barnalækna í ung- og smábarnavernd.
Hvers vegna íslensk stoðmjólk?
Samstarfshópur um næringu ungbarna hefur breytt um áherslur varðandi mjólkurdrykkju barna. Í stað venjulegrar kúamjólkur er nú ráðlagt að sérstök mjólkurstoðblanda eða Stoðmjólk bætist við eftir að brjóstamjólkin minnkar og taki við eftir að barn hættir alveg á brjósti. Með þessum breyttu ráðleggingum er verið að tryggja enn betur næringarbúskap ungra barna, en rannsóknir hafa m.a. sýnt að nokkuð algengt er að járnbúskapur þeirra sé ekki nógu góður. Samsetning Stoðmjólkur tekur mið af öllum næringarþörfum barna og er hún m.a. sérstaklega járnbætt. Henni er ætlað að tryggja að öll þau næringar- og bætiefni, sem börnin þarfnast, séu til staðar í daglegu fæði þeirra og að þau nýtist jafnframt betur úr fæðunni.
Þriggja ára þróunarvinna íslenskra og erlendra vísindamanna
Íslenska stoðmjólkin kom á markað hjá Mjólkursamsölunni árið 2003 eftir þriggja ára þróunarferli sem unnið var af þróunarsviði Mjólkursamsölunnar og rannsóknarstofu í næringarfræðum.
Sjá grein Dr. Björns S. Gunnarssonar um þróunina á Stoðmjólkinni.
Að mati sérfræðinga er margt sem mælir með neyslu Stoðmjólkur úr íslenskri kúamjólk í stað erlendrar þurrmjólkur. Hún tekur sérstaklega mið af næringarþörfum ungra barna hér á Íslandi og meðal annars virðist prótínsamsetningin æskilegri en í þurrmjólkurafurðum úr erlendum kúakynjum. Stoðmjólkin er jafnframt hentugri til neyslu þar sem hún er tilbúin til drykkjar.
Innihald og notkunarleiðbeiningar
Stoðmjólkin innheldur nýmjólk, mjólkurvökva, rjóma, mjólkursykur, kalk, járn, kopar, A-, C-, og E-vítamín.
Stoðmjólk er tilbúin til neyslu og hana á ekki að blanda. Þegar gefa á barninu mjólk er best að hella Stoðmjólkinni í drykkjarmál. Gætið þess að alltaf séu notuð hrein ílát.
Ekki er þörf á að hita Stoðmjólkina, en sé hún hituð er gott að hita hana í volgu vatnsbaði. Hitið Stoðmjólkina aldrei í sjálfri fernunni. Athugið hvort hitastigið sé hæfilegt með því að setja nokkra dropa á handlegg. Mjólkin má í mesta lagi vera hálfvolg (að hámarki um 37°C) en ekki heit. Ekki má endurhita Stoðmjólk. Hendið afgöngum.
Stoðmjólk er kælivara sem skal geyma við 0–4°C og hana má geyma í kæli í allt að 2 daga eftir opnun fernunnar.